Fótbolti

Mané missir bara af fyrstu leikjunum á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sadio Mané ætti að vera klár í slaginn þegar líða fer á riðlakeppnina á HM.
Sadio Mané ætti að vera klár í slaginn þegar líða fer á riðlakeppnina á HM. Stefan Matzke - sampics/Corbis via Getty Images

Meiðsli senegalska knattpsðyrnumannsins Sadio Mané virðast ekki vera jafn al varleg og talið var í fyrstu og leikmaðurinn mun því að öllum líkindum ná að spila á mótinu.

Mané neyddist til að fara af velli í fyrri hálfleik í næst seinasta leik Bayern München fyrir HM-pásuna. Eftir leikinn bárust svo fregnir af því að Mané myndi að öllum líkindum missa af heimsmeistaramótinu vegna meiðslanna.

Nú hefur Abdoulaye Sow, talsmaður senegalska knattspyrnusambandsins, hins vegar staðfest það að Mané muni aðeins missa af fyrstu leikjum heimsmeistaramótsins, án þess þó að staðfesta hversu mörgum leikjum hann muni missa af.

„Við munum þurfa að spila fyrstu leikina án Sadio og treysta á það að vinna án Sadio,“ sagði Sow í samtali við AP-fréttastofuna.

„Þetta er eitthvað sem enginn hefði viljað, en þetta kom fyrir hjá okkur,“ bætti hann við.

Þá staðfesti Aliou Cisse, þjálfari senegalska landsliðsins, að leikmaðurinn þurfi ekki á aðgerð að helda vegna meiðslanna.

Senegal hefur leik á heimsmeistaramótinu í Katar í A-riðli gegn Hollendingum næstkomandi mánudag. Liðið mætir síðan gestgjöfunum í Katar þann 25. nóvember og lokaleikur liðsins í riðlinum er gegn Ekvador fjórum dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×