Fótbolti

Öryggis­verðir í Katar hótuðu að brjóta töku­vél TV2 í beinni út­sendingu

Sindri Sverrisson skrifar
Öryggisverðirnir reyndu að stöðva útsendingu dansks fréttamanns sem lét ekki vaða yfir sig.
Öryggisverðirnir reyndu að stöðva útsendingu dansks fréttamanns sem lét ekki vaða yfir sig.

Danski fjölmiðlamaðurinn Rasmus Tantholdt er ýmsu vanur og lét ekki öryggisverði í Katar vaða yfir sig þegar þeir reyndu að stöðva hann í beinni útsendingu TV2 frá götu í höfuðborginni Doha.

HM í fótbolta hefst í Katar á sunnudaginn og eru leikmenn, stuðningsmenn og fjölmiðlamenn farnir að safnast saman í landinu.

Mikið hefur verið rætt um mannréttindabrot í Katar. Ekki síst þá staðreynd að þúsundir verkamanna hafa látist í landinu á þeim áratug sem liðinn er frá því að FIFA ákvað að leyfa Katar að halda HM með meðfylgjandi kröfum um glænýja leikvanga og fleiri mannvirki.

Katar er ekki heldur þekkt fyrir frjálsa fjölmiðlun og því fékk Tantholdt að kynnast þegar hann vildi veita dönskum áhorfendum innsýn í lífið í Doha, í beinni útsendingu í gærkvöld.

Öryggisverðir komu aðvífandi og héldu fyrir linsuna á tökuvél TV2, og sögðu Dönunum að slökkva á henni þar sem að þeir væru ekki með leyfi til að mynda, þó að um almenningssvæði væri að ræða, eins og sjá má á myndbandi neðst í fréttinni.

Því meiri óhreinn þvottur, því erfiðara fyrir fjölmiðla

„Þið buðuð allan heiminn velkominn hingað. Af hverju megum við ekki taka upp? Þetta er almenningssvæði,“ sagði Tantholdt og benti þeim á að hann væri vissulega með fjölmiðlaskírteini og leyfi til að mynda.

Þá hótaði einn öryggisvarðanna að brjóta tökuvélina en ekki kom til þess, en ljóst er að Katarar vilja gæta þess að umfjöllun sé þeim hliðholl á meðan að gagnrýni á þjóðina hefur til að mynda snúist að því að samkynhneigð er þar ólögleg. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja lögin í landinu mismuna innflytjendum, konum og LGBTQ fólki.

„Þeir eru hræddir um að einhverjir af þessum hlutum komi fram. Upplifun mín eftir að hafa ferðast til 110 landa um allan heim er að eftir því sem óhreini þvotturinn sem maður er með í kjallaranum er meiri, sem maður vill ekki að sjáist, þeim mun erfiðara er fjölmiðlamönnum gert að gera fréttir. Það er það sem við erum að upplifa hérna,“ sagði Tantholdt sem nú segist hafa fengið afsökunarbeiðni frá Katörum vegna málsins.

Danmörk leikur í D-riðli á HM og hefur keppni næsta þriðjudag með leik við Túnis. Liðið er einnig í riðli með Frökkum og Áströlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×