Fótbolti

Mexíkó fara með tap á bakinu til Katar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Francisco Romo með boltann í leiknum í kvöld.
Francisco Romo með boltann í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Mexíkó tapaði 2-1 fyrir Svíum í síðasta æfingaleik liðsins áður en heimsmeistaramótið í Katar hefst. Þá unnu Ítalir sigur á Albaínu en Evrópumeisturunum mistókst að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu.

Mexíkó og Svíþjóð mættust í Girona á Spáni en lið Mexíkó er á leið til Katar þar sem þeir eru í riðli með Pólverjum, Argentínu og Sádi Arabíu. Svíar verða hins vegar ekki með á HM eftir tap í umspilsleikjum í undankeppninni.

Það voru samt Svíar sem fóru með sigur af hólmi í leiknum í kvöld. Marcus Rohden kom þeim í 1-0 á 54.mínútu eftir markalausan fyrri hálfleik en Alexis Vega jafnaði í 1-1 þegar hálftími var eftir af leiknum.

Á 84.mínútu skoraði hins vegar Mathias Svanberg sigurmark Svía en hann leikur með Wolfsburg í þýsku úrvalsdeildinni.

Í Tirana tóku Albanir á móti Ítalíu en hvorug þjóðanna verður með í Katar. Ítalir eru Evrópumeistarar en þeir féllu úr leik í umspilsleikjum um sæti á heimsmeistaramótinu þegar þeir töpuðu gríðarlega óvænt gegn Norður Makedónum.

Albanir náðu forystunni í leiknum í kvöld þegar Ardian Ismajli skoraði á 16.mínútu. Ítalir voru þó ekki lengi að svara fyrir sig því á 20.mínútu skoraði Giovanni Di Lorenzo og fjórum mínútum síðar kom Vincenzo Grifo Ítaíu í 2-1.

Í síðari hálfleiknum skoraði Grifo síðan sitt annað mark og tryggði Ítalíu 3-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×