Fótbolti

Alls 137 leikmenn spila á HM fyrir annað land en þeir fæddust í

Sindri Sverrisson skrifar
Raheem Sterling fékk gjöf frá Vilhjálmi Bretaprins fyrir HM í Katar. Sterling hefði getað spilað fyrir Jamaíku en var aðeins fimm ára þegar hann flutti til Englands.
Raheem Sterling fékk gjöf frá Vilhjálmi Bretaprins fyrir HM í Katar. Sterling hefði getað spilað fyrir Jamaíku en var aðeins fimm ára þegar hann flutti til Englands. Getty/Eddie Keogh

Í landsliðunum 32 sem að keppa á HM í Katar í þessum mánuði er mikill fjöldi leikmanna sem að ekki er fæddur í landinu sem að þeir spila fyrir, eða alls 137 leikmenn.

Fæðingarland segir þó kannski ekki mikið um þjóðerni. Til að mynda var Robert Skov, sá eini í danska hópnum sem fæddur er utan Danmerkur, aðeins níu mánaða gamall þegar fjölskylda hans flutti aftur heim til Danmerkur eftir að faðir hans hafði starfað í banka á Gíbraltar í þrjú ár.

Raheem Sterling er sömuleiðis sá eini í enska landsliðshópnum sem fæddur er utan Englands, í Jamaíku, en hann spilar ekki fyrir Heimi Hallgrímsson því fjölskyldan flutti til Lundúna þegar Sterling var fimm ára gamall.

Samkvæmt yfirliti hlaðvarpsþáttarins Fútbol Infinito, sem sjá má hér að neðan, er Marokkó það landslið sem er með flesta leikmenn fædda utan landsteinanna. Alls eru það fjórtán leikmenn, þar á meðal Chelsea-stjarnan Hakim Zyiech sem fæddist í Hollandi og lék með yngri landsliðum Hollands.

Hjá Afríkuþjóðunum Túnis, Senegal, Kamerún og Gana er stór hópur leikmanna sem fæddur er í Frakklandi. Þannig eru tíu leikmenn Túnis fæddir í Frakklandi sem og níu leikmenn Senegal, átta leikmenn Kamerún og fjórir í Gana. Í velska hópnum eru níu leikmenn sem fæddir eru í Englandi.

Hjá Frökkum eru þrír leikmenn fæddir utan Frakklands en markvörðurinn Steve Mandanda fæddist í Kongó og Eduardo Camavinga, miðjumaður Real Madrid, fæddist í flóttamannabúðum í Angóla en foreldrar hans eru frá Kongó. Þá fæddist Marcus Thuram, sonur Lilian Thuram, á Ítalíu þar sem pabbi hans spilaði með Parma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×