Fótbolti

Líkir tapi Argentínu á móti Sádum í gær við sjokkið hjá Englandi á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku landsliðsmennirnir fagna eftir lokaflautið en þeir ensku voru skiljanlega mjög svekktir.
Íslensku landsliðsmennirnir fagna eftir lokaflautið en þeir ensku voru skiljanlega mjög svekktir. Getty/Laurence Griffiths

Argentínumenn töpuðu mjög óvænt á móti Sádí Arabíu í fyrsta leik sínum á HM í Katar í gær og eru flestir sammála um það að þetta séu ein óvæntustu úrslitin í sögu heimsmeistaramótsins.

Joe Cole skrifar pistil um leikinn í Telegraph og hann fór aftur til júní 2016 til að finna sambærileg úrslit.

Cole líkti þessu tapi argentínska landsliðsins við það þegar Ísland sló England út á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016.

„Við vorum að horfa einn óvæntasta skellinn í sögu HM og þegar ég horfði á leikinn þá sá ég hræðsluna í augum Argentínumannanna,“ skrifaði Joe Cole í pistli sínum.

„Það sást líka á leik þeirra. Góðir fótboltamenn voru að klikka á grundvallaratriðum og töpuðu flestum návígum. Ég gerði mér vel grein fyrir þessu af því að ég hef séð svona áður,“ skrifaði Cole.

„Þegar pressan er svona mikil á þér í stórum leik og þú lendir óvænt í mótlæti þá er svo auðvelt að fara að hugsa um það versta. Með öðrum orðum að fara að sjá fyrir sér það sem er koma, hvernig klukkutímarnir og dagarnir verða eftir svona tap,“ skrifaði Cole.

„Ég sá þennan ótta hjá ensku leikmönnunum þegar þeir voru að tapa á móti Íslandi á EM 2016. Svo margir fóru að hugsa um hvernig það yrði að tapa leiknum og hvernig dómur myndi falla hjá ensku þjóðinni,“ skrifaði Cole.

„Menn frjósa oft í þessari stöðu. Það er tækifæri til að breyta hlutnum en í stað þess að einbeita sér að núinu þá fer hugur þinn með allt annað,“ skrifaði Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×