Úrúgvæ með tvö stangarskot en engin mörk gegn Suður-Kóreu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez fann sig ekki í fyrsta leik Úrúgvæ á HM.
Luis Suárez fann sig ekki í fyrsta leik Úrúgvæ á HM. getty/Elsa

Fjórða markalausa jafntefli heimsmeistaramótsins í Katar leit dagsins ljós þegar Úrúgvæ og Suður-Kórea áttust við í H-riðli. Fátt var um fína drætti í leiknum þar sem bæði lið settu öryggið á oddinn.

Þrátt fyrir að hafa kinnbeinsbrotnað fyrir HM var Son Heung-min með í leiknum í dag. Hann komst þó lítt áleiðis, líkt og aðrir sóknarsinnaðir leikmenn inni á vellinum.

Á 34. mínútu fékk Hwang Ui-jo besta færi Suður-Kóreu í leiknum en skaut yfir úr miðjum vítateignum. Tveimur mínútum fyrir hálfleik var svo fyrirliði Úrúgvæ, Diego Godín, hársbreidd frá því að koma sínum mönnum yfir en skallaði í stöngina.

Mínútu fyrir leikslok small boltinn aftur í stöng suður-kóreska marksins. Federico Velvarde lét þá vaða fyrir utan vítateig og boltinn fór í stöngina og út af.

Mörkin létu hins vegar á sér standa og bæði lið gengu af velli með eitt stig. Úrúgvæ hefur nú haldið hreinu í fimm leikjum í röð í riðlakeppni HM.

Klukkan 16:00 hefst seinni leikur dagsins í H-riðli. Þar mætast Portúgal og Gana.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira