Erlent

Minnst tólf saknað eftir aurskriðu á Ítalíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Aurskriðan olli miklum skemmdum.
Aurskriðan olli miklum skemmdum.

Stór aurskriða fór yfir hluta bæjarins Casamicciola á eyjunni Ischia á Ítalíu í morgun. Minnst tíu hús hrundu vegna skriðunnar en mikið hefur rignt á eyjunni undanfarna daga.

Í fyrstu héldu embættismenn því fram að minnst átta væru látnir og tólf saknað. Innanríkisráðherra Ítalíu hefur þó haldið því fram í kjölfarið að enginn dauðsföll hafi verið staðfest enn.

ANSA fréttaveitan segir um þrjátíu fjölskyldur í bænum vera einangraðar. Ekki hafi náðst í um hundrað manns og þau séu án vatns og rafmagns.

Myndband sem sýnir afleiðingar aurskriðunnar má sjá hér að neðan. Hún fór af stað klukkan fimm að morgni, að staðartíma, og rann yfir hluta þorpsins.

Matteo Salvini, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, deildi myndbandinu í morgun.

ANSA segir veðrið hafa komið niður á björgunarstarfi og það hafi einnig tafið liðsauka sem verið sé að senda frá Napólí. Haft er eftir embættismönnum að ástandið sé alvarlegt.

Björgunarmenn birtu í morgun meðfylgjandi myndband sem sýnir aðstæður á Ischia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×