Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vakti athygli á örlögum Brynju. Hún hefur leigt íbúð hjá Ölmu á Hverfisgötu í Reykjavík undanfarin ár og var leigan um 250 þúsund krónur á mánuði. Leigusamningurinn rennur út 31. janúar og barst Brynju tölvupóstur um mánaðamótin.
„Við getum boðið þér endurnýjun á leigusamningi með grunnleiguverð kr. 325.000,“ sagði meðal annars í tölvupóstinum. Var hún beðin um að láta vita sem fyrst hvort hún vildi framlengja. Það kom ekki til greina hjá Brynju enda sagðist hún eiga í nægum vandræðum með að standa undir núverandi húsaleigu.
Forsvarsmenn Ölmu hafa ekkert tjáð sig um málið. Ingólfur Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri neitaði að ræða við fréttamann fyrr í dag. Gunnar Þór Gíslason, einn fjögurra systkina sem eiga Ölmu í gegnum félag sitt Langasjó, tjáði fréttastofu í dag að félagið væri að skoða hvort það vildi taka þátt í umræðunni. Gunnar er faðir Ingólfs Árna.
Nú er Brynja Hrönn komin með aðra íbúð. Ekki beint á næstu grösum en fyrir dyrum standa flutningar frá Hverfisgötu í Reykjavík, hvaðan hún hefur getað sótt sér þjónustu gangandi, á Ásbrú í Reykjanesbæ.
„Ég fæ íbúð sem ég sótti um hjá Ásbrú 20. desember,“ segir Brynja sem átti ekki von á viðbrögðunum við færslu sinni í hópi öryrkja á Facebook. Umfjöllunin sé í það mesta fyrir hana en hún hafi þó líklega hjálpað til.
„Það hringdi allavega einhver í mig í stað þess að senda mér tölvupóst,“ segir Brynja og vísar til starfsmanns hjá leigufélaginu Heimstaden.
Brynja flytur úr um 80 fermetra íbúð á Hverfisgötu yfir í aðeins stærri íbúð að Ásbrú. Leigan verður 195 þúsund krónur á mánuði. Henni líst vel á íbúðina, hún fær að halda dýrin sín en hún hefur áhyggjur af því að einangrast. Hún er ekki ókunn Suðurnesjunum en hún bjó í Garði og Keflavík í um 25 ár áður en hún flutti aftur heim í Reykjavík þar sem hún hefur verið í á fjórða ár.

„Kostnirnir við að búa í Reykjavík er nálægðin við læknana mína og svo get ég farið svo mikið,“ segir Brynja. Það geti hún bíllaus en sjálf ekur hún ekki bíl.
„Ég verð örugglega innilokuð á Ásbrú, eins og ég var í Keflavík. Því ég get ekki keyrt ein,“ segir Brynja.
Hún bíður þess að dóttir hennar komi til landsins frá Bandaríkjunum en þau tengdasonurinn ætla að hjálpa henni við flutninga.
Þá hringdi frænka hennar í leigufélagið Ölmu sem samþykkti að Brynja mætti yfirgefa íbúðina um áramótin án þess að greiða leigu fyrir janúar.
„Það er svolítið erfitt að flytja. Ég var að vona að ég gæti verið hérna þangað til ég hrykki upp af.“