Þingmennirnir komu saman í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun en fjárlagafrumvarpið hefur mikið verið til umræðu á þinginu undanfarna daga og lýkur annarri umræðu líklegast á morgun. Þau fóru yfir víðan völl en undir lok þáttarins beindist umræðan að margrómuðu leiguþaki, sem fjármálaráðherra hefur ekki viljað grípað til.
Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunar á vegum Samtaka leigjenda eru 72 prósent þjóðarinnar hlynnt því að tekin verði upp leigubremsa á Íslandi en Samtök leigjenda segja hugtakið leigubremsa snúa því þegar gefið sé út viðmið um það hversu mikið húsaleiga má hækka á gefnu tímabili.
Óásættanlegar hækkanir leigusala
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði það óásættanlegt að leiguslar væru að hækka leiguna um tugi þúsunda og vísaði til máls öryrkja sem Vísir fjallaði um á dögunum. Þá væri verið að fjármálavæða húsnæðismarkaðinn og leiguliðavæða þjóðina. Flokkur fólksins myndi leggja fram frumvarp til að bregðast við stöðunni til bráðabirgða fyrir jól.
„Það er alltaf að aukast að fólk hefur ekki efni á að kaupa eigið húsnæði, út af vöxtum. Það er eini kosturinn að fara í leiguhúsnæði og þá geta þau ekki safnað fyrir fyrstu útborgun í húsnæði. Það verður að taka á þessu. Einstaklingar eiga að fá tækifæri til að kaupa sitt eigið húsnæði og þetta sýnir þessa fjármálavæðingu sem er búin eiga sér stað í mörg mörg ár og meðal annars undir þessari ríkisstjórn,“ sagði Eyjólfur.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti þá á að þau hafi lagt fram þingmál um leigubremsu, sem stjórnvöld hafi lofað í lífskjarasamningum árið 2019.
„Ef þau hefðu staðið við það loforð þá væri hægt að verja leigjendur fyrir þessu sem er nákvæmlega að gerast núna. Ég held að sé alveg alveg augljóst mál að það verður, að stjórnvöld þurfi að stíga þarna inn í og við þurfum að líta upp og líta til annarra landa sem hafa nákvæmlega gert til að verja leigjendur. Leigjendur hér á landi er okkar fátækasta fólk,“ sagði Oddný.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók undir ákall um leiguþak og sagði það ekki eiga vera þannig að fé úr ríkissjóði sem ætlað sé að taka á húsnæðismálunum fari í hendur leigusala.
„Það er bara óskynsamlegt að takast ekkert á við það með því að setja einhvers konar þak. Það eru eflaust til einhverjar útfærslur á því, það hefur verið vitnað til Danmerkur talsvert í þessu samhengi. Þannig að ég treysti því að það verði eitthvað að þessu hugað núna þegar við stöndum frammi fyrir því að liðka fyrir kjarasamningum eða annað slíkt,“ sagði Bjarkey.