Innlent

Ein­greiðslan skipti miklu máli í ljósi hækkandi verð­lags

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Þuríður Harpa segir alla sem hafi talað fyrir eingreiðslunni eiga hrós skilið.
Þuríður Harpa segir alla sem hafi talað fyrir eingreiðslunni eiga hrós skilið. Stöð 2/Sigurjón

Á fjórða tímanum í dag var eingreiðsla upp á 60.300 krónur til örorku og endurhæfingarlífeyrisþega samþykkt á Alþingi. 

Frumvarpið var samþykkt með 58 atkvæðum og verður nú sent til ríkisstjórnar sem lög frá þinginu.

Frumvarpið var samþykkt með 58 atkvæðum.Alþingi

Fyrir atkvæðagreiðsluna var kallað eftir því að eingreiðslan yrði lögfest til þess að þau sem ættu rétt á greiðslunni þyrftu ekki að bíða milli vonar og ótta fyrir jól ár hvert. 

Greiðslan var samþykkt fjær jólum þetta árið eða tíu dögum fyrir jól. Í fyrra var eingreiðslan samþykkt á Alþingi þann 20. desember og barst hún til fólks á Þorláksmessu.

Eiga hrós skilið

Í samtali við fréttastofu segist Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins vera hamingjusöm með ákvörðunina.  Ákvörðunin Alþingis eigi vissulega eftir að fara í gegnum ákveðið ferli en um leið og því sé lokið sé hægt að greiða upphæðina út. 

„Ég veit að Tryggingastofnun er búin að vera að undirbúa þetta. Það tekur svona tvo til þrjá daga að koma þessu frá og þau eru bara tilbúin þannig að ég held að þetta komi vel fyrir jól,“ segir Þuríður. 

Hún segir greiðsluna skipta miklu máli fyrir öryrkja, þá sérstaklega í ljósi hækkandi verðlags. Þá skipti fyrirvarinn í ár miklu máli svo fólk geti nýtt greiðsluna í að kaupa mat og jólagjafir í tæka tíð. 

Að lokum bætir hún við að allir sem talað hafi fyrir eingreiðslunni eigi hrós skilið fyrir að koma henni í gegn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×