Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs við Grensásveg væri nærri leyfilegum heilsuverndarmörkum um miðjan dag í dag. Klukkutímagildið mældist 196,3 míkrógrömm á rúmmetra en hámarkið er tvö hundruð míkrógrömm. Á sama tíma mældist styrkur grófs PM10-svifryks 105 míkrógrömm á rúmmetra.
Mengunin kemur að mestu leyti frá bílaumferð. Köfnunardíoxíð kemur frá útblæstri bifreiða og er sagt að jafnaði mest á morgnana og síðdegis þegar umferð er sem þyngst. Svifrykið er blanda af malbiksögnum, sóti, jarðvegi, salti og sliti úr hjólbörðum og bílhlutum sem þyrlast upp þegar þurrt er í veðri, að því er segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.
Loftmengun er skaðleg heilsu fólks og getur valdið ertingu í lungum og öndunarvegi. Borgaryfirvöld ráðleggja þeim sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börnum að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna.
Til að fyrirbyggja frekari mengun hvetur borgin almenning til þess að draga úr notkun einkabílsins og nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.