Fótbolti

Martínez útskýrir fagnið umdeilda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emilano Martínez bregður á leik með verðlaunin sem hann fékk fyrir að vera valinn besti markvörður HM í Katar.
Emilano Martínez bregður á leik með verðlaunin sem hann fékk fyrir að vera valinn besti markvörður HM í Katar. getty/Alex Livesey

Emiliano Martínez, markvörður heimsmeistara Argentínu, hefur útskýrt af hverju hann fagnaði eins og gerði eftir að tók við verðlaununum fyrir að vera besti markvörður HM í Katar.

Martínez átti risastóran þátt í því að Argentína varð heimsmeistari í þriðja sinn. Í úrslitaleiknum á sunnudaginn varði hann frá Randal Kolo Muani í uppbótartíma framlengingarinnar og svo spyrnu Kingsleys Coman í vítakeppninni.

Martínez var valinn besti markvörður HM en uppátæki hans eftir að hann tók við verðlaunagripnum vakti nokkra athygli. Hann hélt honum fyrir framan miðsvæðið á sér, hallaði sér aftur og gretti sig.

Markvörðurinn hefur núna greint frá því af hverju hann lét eins og hann lét á verðlaunaathöfninni.

„Ég gerði þetta því frönsku stuðningsmennirnir púuðu á mig. Ég tengi ekki við hroka þeirra,“ sagði Martínez við argentínska sjónvarpsstöð.

Hann var í miklum ham eftir leikinn og þegar Argentínumenn komu inn í búningsklefa bað hann þá um einnar mínútu þögn fyrir Kylian Mbappé sem skoraði þrennu í úrslitaleiknum.

Aðeins eitt og hálft ár er síðan hinn þrítugi Martínez lék sinn fyrsta landsleik. Síðan þá hefur hann hjálpað Argentínumönnum að vinna Suður-Ameríkukeppnina og HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×