Erlent

Rússar héldu árásum sínum áfram í nótt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar í Zaporizhzhia freista þess að bjarga eigum sínum úr rústum húsa sem urðu fyrir árásum Rússa á nýársnótt.
Íbúar í Zaporizhzhia freista þess að bjarga eigum sínum úr rústum húsa sem urðu fyrir árásum Rússa á nýársnótt. AP/Andriy Andriyenko

Loftvarnaflautur hljómuðu í Kænugarði í gærkvöldi og nótt en samkvæmt heimildarmönnum innan úkraínska hersins skutu loftvarnakerfi niður um það bil tuttugu skotmörk, meðal annars dróna. 

Borgarstjórinn Vitaly Klitschko segir orkuinnviði hafa verið meðal skotmarka Rússa, með þeim afleiðingum að rafmagn fór af á sumum svæðum.

Hermálayfirvöld í austurhluta Úkraínu segja loftvarnakerfi hafa skotið niður níu íranska Shahed dróna yfir Dnipropetrovsk og Zaporizhzhia í nótt.

Um var að ræða aðra nóttina í röð þar sem Rússar gerðu árásir á Kænugarð og aðrar borgir í Úkraínu en þrír létust í árásunum á nýársnótt.

Rússneska varnarmálráðuneytið sagði að skotmörk Rússa hefðu verið innviðir Úkraínu til framleiðslu dróna en Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Vólódímírs Selenskís Úkraínuforseta sagði skotmörkin þvert á móti hafa verið þéttbýli í stórborgum landins.

Þetta væri til marks um breyttar áherslur Rússa; þeir hefðu gefist upp á hernaðarlegum markmiðum sínum og einblíndu nú á að geta myrt eins marga almenna borgara og þeir gætu.

Úkraínsk hermálayfirvöld segja Rússa leggja drög að annarri innrás inn í norðurhluta landsins á næstu tveimur mánuðum. Hefur febrúar verið nefndur í þessu samhengi. Úkraínumenn segjast munu verða viðbúnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×