Hún greindi frá þessu á Instagram. „Klárlega eitt af mínum bestu tímabilum en nú er tími til að kveðja. Brann, ég get ekki þakkað nóg fyrir mig, samherjum, öllum í kringum félagið og stuðningsmenn! Bestu stuðningsmenn sem ég hef haft,“ skrifaði Svava.
Svava kom til Brann fyrir síðasta tímabil eftir erfiðan tíma hjá Bordeaux í Frakklandi. Hún lék alla 22 deildarleiki Brann í fyrra, skoraði sex mörk og lagði upp tvö. Þá skoraði hún þrjú mörk í fjórum leikjum þegar Brann vann bikarkeppnina. Hún lagði meðal annars upp tvö mörk í bikarúrslitaleiknum þar sem Brann sigraði Stabæk, 3-1.
Hin 27 ára Svava hefur einnig leikið með Røa í Noregi og Kristianstad í Svíþjóð síðan hún hélt út í atvinnumennsku 2018. Hér heima lék Svava með Val og Breiðabliki. Hún varð Íslandsmeistari með Blikum 2015. Svava hefur leikið 42 landsleiki og skorað í þeim tvö mörk.
Líklegast þykir að Svava sé á leið til Englands. Hún hefur meðal annars verið orðuð við West Ham United sem Dagný Brynjarsdóttir leikur með.