Logi var gestur sjöunda þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaraðar Stefáns Árna Pálssonar, um framgöngu íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking 2008.
Logi sneri aftur til Lemgo haustið 2008 eftir að hafa fagnað Ólympíusilfrinu með stæl. Og honum var hent beint inn í æfingaleik.
„Ég gróf svolítið mína eigin gröf. Það voru búin að vera veisluhöld og gaman. Ég var sóttur til Frankfurt beint í æfingaleik. Ég var látinn byrja inn á því ég var nýkominn af Ólympíuleikunum. Ég var hylltur og þvílíkt gaman,“ sagði Logi.
„Ég fór síðan í hraðaupphlaup og ætlaði sleppa boltanum með vinstri yfir markvörðinn og gera grín að honum. Ég hitti í stöngina og hann öskraði á mig. Ég var ógeðslega þreyttur, búinn að vera á Íslandi í partíum og ég ákvað að dúndra boltanum upp í stúku og í andlitið á áhorfanda. Ég fékk rautt spjald og það var allt vitlaust í félaginu.“
Þessi uppákoma kom einu og hálfu ári eftir frægt atvik í leik Íslendinga og Þjóðverja á HM í Þýskalandi þegar Logi skaut boltanum í höfuðið á Christian Zeitz beint úr aukakasti.
„Ég skaut í hausinn á honum, það varð allt vitlaust og þeir ráðast á mig, mínir liðsfélagar. Það æsti aðeins í mér,“ sagði Logi en allir í varnarvegg Þjóðverja voru samherjar hans hjá Lemgo, nema Zeitz.
Logi bætti svo gráu ofan á svart þegar hann þóttist ætla að hrækja á gest íþróttahússins þegar hann var á leið til búningsherbergja.
„Það var einhver kona sem tók bækling, bögglaði hann saman og þrumaði í mig. Og ég ræskti mig og það varð alltaf vitlaust. Ég skyrpti ekkert á þessa konu en ögraði bara aðeins. Innst inni hafði ég svo gaman að þessu, hvað manni tókst að veðra fólkið upp,“ sagði Logi.
Hlusta má á sjöunda þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.