Kænugarður, Kharkív og Odessa urðu illa úti í eldflaugaárásum Rússa í gær. Verst var árásin á níu hæða íbúðablokk í Dnipro. Af þeim sem komust lífs af þurfti að færa sjötíu almenna borgara á sjúkrahús. Tíu eru sagðir vera alvarlega særðir.
Borys Filatov borgarstjóri Dnipro segir ólíklegt að nokkur finnist á lífi. Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti gagnrýnir heigulshátt Pútíns Rússlandsforseta og dauðaþögnina sem ríki í Kreml: „Þú ætlar að reyna að bíða þar til við missum móðinn. En það endar aðeins með því að einn daginn munu þessir sömu hryðjuverkamenn banka upp á hjá þér.“
Fréttastofa ræddi við Óskar Hallgrímsson sem búsettur er í Kænugarði í gær sem sagðist hafa vaknað við sprengingar í borginni. Hann sagðist mest óttast rafmagnsleysi en Rússar hafa lengi einblínt á að tortíma innviðum. Rafmagn er víða af skornum skammti.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti segir allt ganga samkvæmt áætlunum. Breska ríkisútvarpið greinir frá.