Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata. Spurði hann hvað hafi verið gert til að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem starfshópur um hvernig megi draga úr neikvæðum áhrifum mengunar frá flugeldum skilaði árið 2020.
Að auki var spurt um hvenær ráðherra hafi skipað starfshóp til að fjalla um fjármögnun björgunarsveita, hverjir ættu sætu í honum og hvenær hann myndi skila niðurstöðu. Skipun slíks starfshóps var ein af tillögum starfshópsins sem fjallaði um mengun af völdum flugelda.
Starfshópur um mengun af völdum skothelda lagði fram sjö tillögur að úrbótum, sem lúta að eftirfarandi:
- Skammtímaaðgerðum í áætlunum heilbrigðisnefnda,
- Starfsleyfisskyldu og eftirliti með skoteldasýningum
- Þrengri tímamörkum um almenna notkun skotelda,
- Fækkun söludaga
- Auknu eftirliti með skoteldum,
- V iðurlögum og stjórnvaldssektum
- Skipun starfshóps til að fjalla um fjármögnun björgunarsveita
Í svari dómsmálaráðherra er tiltekið að sumar af þeim tillögum sem lagðar voru til séu ekki innan ábyrgðasviðs dómsmálaráðherra. Engu að síður hafi verið lögð fram drög að reglugerðarbreytingu haustið 2020, til að þrengja tímamörk um almenna notkun flugelda og fækka söludögum.
Útgáfu reglugerðarinnar var hins vegar frestað vegna Covid-19 auk þess sem mikilvægt þótti að veita söluaðilum flugelda ráðrúm til að skipuleggja sig með nægum fyrirvara.
Mikilvægt að hafa samráð við björgunarsveitir
Í svarinu er einnig bent á að flugeldasala sé langstærsta tekjuöflunarleið björgunarsveita. Mikilvægt sé að þær hafi fjárhagslega burði til að sinna starfi sínu.
„Að mati ráðuneytisins þarf að eiga samráð við björgunarsveitir landsins áður en tekin er ákvörðun sem getur haft áhrif á fjármögnun þeirra og getu til að sinna verkefnum,“ segir í svarinu.
Sem fyrr segir var ein tillaga flugeldastarfshópsins að skipaður yrði starfshópur til að vinna tillögur um fjármögnun björgunarsveita. Var upphaflega lagt upp með að slíkur hópur tæki til starfa og skilaði niðurstöðu áður en tekin yrði ákvörðun um að gera reglugerðabreytingu sem hefði meðal annars í för með sér fækkun á söludögum flugelda.
„Ráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa ekki slíkan starfshóp en hann hyggst ræða þær tillögur sem settar voru fram af starfshóp um mengun af völdum skotelda við Slysavarnafélagið Landsbjörg og björgunarsveitir,“ segir í svarinu.
Að mati ráðherra sé mikilvægt að samráð eigi sér stað áður en teknar eru ákvarðanir um aðgerðir sem geti haft áhrif á getu björgunarsveita til að sinna sínum verkefnum.
„Í framhaldi af samtali við björgunarsveitir verður tekin afstaða til þeirra tillagna sem lagðar voru fram af hálfu starfshópsins og eru á ábyrgð ráðuneytisins og tekin ákvörðun um næstu skref,“ segir í svarinu.