Líkt og önnur lið í Meistaradeildinni þurfti Chelsea að skila inn 25 manna lista í vikunni yfir þá leikmenn sem mega taka þátt í útsláttakeppninni. Aðeins mátti skrá þrjá nýja leikmenn í 25 manna hópinn og þar sem Chelsea fór mikinn á leikmannamarkaðinum í janúar fékk Graham Potter, stjóri liðsins, þann hausverk að velja og hafna.
Þrír af þeim leikmönnum Chelsea sem félagið verslaði í síðasta mánuði komust í 25 manna hópinn. Það eru þeir Enzo Fernández, Mykhailo Mudryk og João Félix. Aðrir leikmenn sem félagið fékk til liðs við sig í janúar þurfa hins vegar að sætta sig við að fylgjast með Meistaradeildinni úr stúkunni. Þar á meðal er varnarmaðurinn Benoît Badiashile, sem Chelsea keypti á 35 milljónir punda.
Chelsea mætir Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og fer fyrri leikur liðanna fram þann 15. febrúar næstkomandi.