Adrian Wojnarowski er einn af virtustu blaðamönnunum sem fjalla um NBA-deildina í körfuknattleik og trúverðugleiki hans mikill.
Hann skrifaði á Twitter fyrr í kvöld að Brooklyn Nets, núverandi vinnuveitendur Kyrie Irving, væru að skipta honum til Dallas Mavericks.
The Nets are trading Kyrie Irving to the Mavericks, source tells ESPN.
— Adrian Wojnarowski (@wojespn) February 5, 2023
Skiptin koma töluvert á óvart enda hafa flestir talið að Irving yrði samherji LeBron James hjá Los Angeles Lakers en nú virðist allt stefna í að Irving og Luka Doncic fái að leika listir sínar saman.
Irving óskaði eftir skiptum frá Nets á dögunum en hann hefur verið mikið í fréttunum á tímabilinu og oftar en ekki á neikvæðan hátt. Hann var meðal annars dæmdur í bann fyrir áramótin fyrir að dreifa gyðingahatri á Twitter-síðu sinni. Í kjölfarið sögðu fjölmargir styrktaraðilar upp samningum sínum við Irving.
Adrian Wojnarowski segir að Brooklyn Nets hafi átt í viðræðum við Los Angeles Lakers um möguleg skipti en hafi valið samning við Dallas framyfir Lakers. Í skiptum Nets og Dallas Mavericks fara leikmennirnir Dorian Finney-Smith og Spencer Dinwiddie til Nets auk þess sem Mavericks gefa eftir valrétti í nýliðavali árið 2027 sem og árið 2029.
Wojnarowski segir að forráðamenn Dallas hafi viljað aðra stjörnu við hlið Luka Doncic sem þeir fá svo sannarlega með því að krækja í Irving.
The Nets-Mavericks talks accelerated on a trade today, sources said. The Lakers and Nets had several conversations on a potential deal, but Nets preferred Mavs' package -- getting back a point guard and wing to plug in now plus the future picks.
— Adrian Wojnarowski (@wojespn) February 5, 2023