Innlent

Braut rúðu á hóteli og hrækti í and­lit lög­reglu­manns

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
lögga
Vísir/Vilhelm

Tilkynning barst til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt um aðila sem braut rúðu á hóteli í  miðborginni.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Fram kemur að gerandinn hafi jafnframt verið með ógnandi tilburði. Þegar lögregla kom á vettvang gaf hún sig á tal við gerandann, sem reyndist ölvaður og óviðræðuhæfur. Gerandinn var handtekinn vegna gruns um eignaspjöll en þegar flytja átti gerandann á lögreglustöðina við Hverfisgötu hrækti gerandinn í andlit lögreglumanns sem sat við hlið hans í lögreglubifreiðinni. Viðkomandi var vistaður í fangaklefa.

Lögregla sinnti veitingahúsaeftirliti á sjö veitingahúsum í miðborginni í nótt og kannaði réttindi dyravarða. Þrír einstaklingar í miðbænum sinntu dyravörslu án þess að vera með tilskilin réttindi. Inni á einum veitingastað voru of margir gestir þegar lögregla kom á vettvang. Ábyrðgaraðila var kynnt að skýrsla yrði rituð vegna brots á lögum um veitingastaði og hann látinn vita að ef lögregla kæmi aftur á vettvang og ekki yrði gætt að gestafjölda yrði veitingastaðnum lokað.

Þá var tilkynnt um ógnandi mann sem neitaði að yfirgefa húsnæði í hverfi 105. Aðilinn var áberandi ölvaður þegar lögregla kom á vettvang. Fram kemur í dagbók lögreglunnar að viðkomandi hafi brugðist illa við og lamið frá sér í lögreglubifreið. Aðilinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem vakthafandi varðstjóri ræddi við hann og að viðræðum loknum var aðilanum ekið til sín heima.

Þá var tilkynnt um minniháttar líkamsárás á skemmtistað í miðborginni. Gerandinn var þó farinn af vettvangi en árásarþolinn kvaðst vita hver gerandinn var. Árásarþolanum var tjáð að sækja sér áverkavottorð og panta tíma í kærumóttöku.

Þá barst tilkynning um aðila í Kópavogi sem gekk berserksgang og olli minniháttar skemmdarverkum. Fram kemur að aðilinn hafi augljóslega verið undir áhrifum áfengis. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×