Innlent

Fjórir í gæslu­varð­haldi grunaðir um fram­leiðslu og sölu am­feta­míns

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fimm voru handteknir og fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Fimm voru handteknir og fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Vísir/vilhelm

Fjórir eru í gæsluvarðhaldi í tengslum við fund lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á miklu magni fíkniefna við húsleitir í síðustu viku. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að fimm hafi verið handteknir í þessum aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi en fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Tilkynning þess efnis barst frá lögreglunni klukkan 13:30 eftir hádegi í dag. Þar segir að við húsleitirnar hafi fundist sjö kíló af amfetamíni og um 40 kíló af maríjúana, auk annarra fíkniefna og frammistöðubætandi efna, eða stera.

Mennirnir fjórir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi  Reykjavíkur til 16. febrúar í þágu rannsóknarinnar, sem hafi staðið yfir undanfarnar vikur. 

Hinir handteknu eru grunaðir um að hafa staðið að framleiðslu fíkniefna sem og sölu og dreifingu þeirra. 

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild sagðist í samtali við Vísi engar frekari upplýsingar um málið geta veitt að svo stöddu. 

Þungir dómar hafa fallið undanfarin misseri vegna innflutnings og/eða framleiðslu á amfetamíni. Í október féllu þyngstu dómar sem fallið hafa í fíkniefnamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í saltdreifaramálinu svokallaða. Fimm voru sakfelldir í málinu, tveir dæmdir í tólf ára fangelsi, tveir í tíu ára fangelsi og einn í tveggja ára fangelsi. 

Þá voru þrír karlmenn dæmdir í sex og fimm ára fangelsi í Landsrétti sumarið 2020 fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×