Skoðun

Vindorku­ver heyra undir ramma­á­ætlun - sem betur fer!

Auður Önnu Magnúsdóttir skrifar

Haldbesta stjórntækið sem íslenskt samfélag hefur komið sér upp til að ákveða hvar og hvort orkuver eigi að rísa á tilgreindum stöðum er áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, oftast kölluð rammaáætlun. Áætlunin er ekki gallalaus en hefur líka marga kosti og það er þess vegna sem það er farsælast að öll orkuver sem selja orku inn á landsnetið séu metin og raðað í rammaáætlun; líka vindorkuver og litlar virkjanir sem ekki eru til heimabrúks.

Fagleg ákvarðanataka er forsenda farsællar niðurstöðu

Allra mikilvægasti og langstærsti kostur rammaáætlunar er að grunnur hennar er fagleg ákvarðanataka og samanburður kosta sem veitir yfirsýn. Fjölmargir sérfræðingar koma að því að meta verðmæti náttúru- og menningarminja á þeim landsvæðum sem virkjanaaðilar telja vænleg fyrir orkuver, sem og áhrif á aðra nýtingu, samfélag og efnahag.

Laus við hagsmunaárekstra

Annar stór kostur er að verkefnisstjórn rammaáætlunar (og faghópar hennar) hefur ekki beina hagsmuni af því að ákveðið landsvæði sé virkjað. Eins og lögum er háttað í dag eru það eingöngu sveitarstjórnir sem taka ákvarðanir um orkunýtingu ef nýtingin fellur ekki undir rammaáætlun. Á því fyrirkomulagi eru fjölmargir gallar, t.d. fjárhagslegir hagsmunir sveitafélagsins þar sem einstök framkvæmd getur aukið tekjur sveitafélagsins verulega . Jafnframt er um gríðarlega flóknar ákvarðanir að ræða sem lítil sveitafélög hafa í mörgum tilfellum takmarkaða getu til að meta.

Horfum á hlutina heildstætt

Þriðji stóri kostur rammaáætlunar er heildaryfirsýn. Í ferlinu við mat á landsvæðum skoða verkefnisstjórn og faghópar marga virkjanakosti samtímis og meta hvaða áhrif ein áform hafa á allt landið samhliða öðrum áformum og þeim orkuverum sem fyrir eru. Því er rammaáætlun eina stjórntækið sem getur metið heildaráhrif af áformaðra vindorkuvera á t.d. víðerni landsins. Tugir vindorkuvera eru á teikniborðinu á Íslandi en enginn aðili nema verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur burði eða heimild til að meta heildstætt áhrif þeirra víðerni og önnur náttúruverðmæti. Það sama gildir um heildaráhrif vindorkuvera á raforkuöryggi.

Áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða er auðvitað ekki gallalaus. Til dæmis hefur verið kvartað yfir því að ferlið sé tímafrekt. En faglegar og vel ígrundaðar ákvarðanir taka tíma og verða fá að gera það, enda mikið í húfi. Hins vegar hefur dregist fram úr hófi hjá Alþingi að afgreiða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða - tafirnar eru ekki hjá verkefnastjórn eða faghópum. Það er því ekki ferlið sjálft sem er óþarflega tímafrekt, heldur pólitíkin.

Vindorkuver eru orkuver sem nýta land, breyta ásýnd þess og hafa veruleg áhrif á lífríkið, upplifun af landinu og geta haft veruleg áhrif á lífsgæði og möguleika komandi kynslóða. Það er því engin spurning um að þau eiga að heyra undir lög um vernd og orkunýtingu landsvæða, en auk þess hefur rammaáætlunarferlið marga kosti sem nauðsynlegt er að nýta við ákvarðanatöku um vindorkuver. Látum ekki þennan nýja iðnað falla í sama stjórnleysi og fiskeldi. Vindorkuver heyra undir rammaáætlun, sem betur fer.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×