Real þurfti nauðsynlega á sigri að halda í kvöld. Barcelona hefur aukið forskot sitt á toppnum að undanförnu og fyrir leikinn var það orðið ellefu stig.
Það var líka ljóst að Real ætlaði sér ekkert annað en sigur í kvöld. Marco Asensio kom liðinu yfir strax á 8.mínútu eftir sendingu Dani Carvajal og Karim Benzema bætti tveimur mörkum við fyrir hálfleik.
Fyrst skoraði Benzema úr víti á 31.mínútu og Real fékk aðra vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem Benzema skoraði sömuleiðis úr.
Staðan í hálfleik 3-0 og úrslitin ráðin. Luka Modric skoraði fjórða mark Real tíu mínútum fyrir leikslok og 4-0 sigur Real staðreynd.
Eins og áður segir er forskot Barcelona á toppnum nú átta stig en bæði lið hafa leikið tuttugu og einn leik. Barcelona á leik á morgun í Evrópudeildinni þegar þeir fá Manchester United í heimsókn en Real mætir Liverpool í Meistaradeildinni í næstu viku.