Innlent

Verkfallsaðgerðum frestað

Bjarki Sigurðsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Sólveig Anna og Eflingarfélagar hafa frestað verkfallsaðgerðum sínum. 
Sólveig Anna og Eflingarfélagar hafa frestað verkfallsaðgerðum sínum.  Vísir/Vilhelm

Verkfallsaðgerðum Eflingar hjá starfsmönnum Íslandshótela, Berjaya Hotels, Reykjavík Edition, Skeljungs, Samskipa og Olíudreifingu hefur verið frestað á meðan samningaviðræður Eflingar og SA halda áfram. Fulltrúar beggja aðila hafa fundað í húsnæði ríkissáttasemjara í kvöld og tókst að finna flöt til að halda viðræðunum gangandi.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari greindi frá þessu klukkan rétt rúmlega níu í kvöld. Fundi er nú slitið og verður viðræðum haldið áfram í fyrramálið. Með samkomulaginu er öllum verkfallsaðgerðum Eflingar frestað til miðnættis sunnudaginn 19. febrúar næstkomandi. Frestunin tekur þegar gildi. 

Fjölmiðlabann var sett í gildi til þess að betri vinnufriður næðist milli deiluaðila. Nú eiga alvöru kjarasamningsviðræður að hefjast að sögn Ástráðs. 

Í tilkynningu á vef Eflingar segir að Eflingarfélagar eigi að mæta til vinnu í samræmi við ráðningasamning frá því nú og fram að lokum frestunarinnar. Félögum stéttarfélagsins er ráðlagt að hafa samband við sinn atvinnurekanda til að komast að því hvenær ætlast er til þess að þeir mæti til vinnu. 

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að til þess að halda viðræðum áfram hafi þurft að fresta verkföllum. Hann segir kjaraviðræður ekki hafnar varðandi efni en nú sé verið að halda áfram að finna grundvöll til áframhaldandi viðræðna. 

„Hugur minn er hjá erlendum ferðamönnum sem höfðu séð það fyrir sér að gista í strætóskýlum. Þau eru komin í skjól,“ segir Ragnar. 

Sólveig Anna Jónsdóttir sagði í morgun að Efling myndi ekki fresta verkfallsaðgerðum á meðan setið væri við samningsborðið, nema að „eitthvað raunverulegt“ kæmi frá Samtökum atvinnulífsins. Samtökin töldu það eðlilegt að aðgerðunum yrði frestað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira
×