Fótbolti

Dýrkeypt mistök kostuðu Lee Mason starfið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lee Mason gerðist sekur um dýrkeypt mistök í leik Arsenal og Brentford.
Lee Mason gerðist sekur um dýrkeypt mistök í leik Arsenal og Brentford. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Knattspyrnudómarinn Lee Mason og dómarasambandið PGMOL hafa komist að samkomulagi um að Mason muni yfirgefa sambandið eftir dýrkeypt mistök. Hann mun því ekki dæma aftur í ensku úrvalsdeildinni.

Þessi 51 árs gamli dómari var örlagavaldur í leik Arsenal og Brentford sem endaði með 1-1 jafntefli eftir að Brentford jafnaði metin seint í leiknum. Jöfnunarmarkið átti þó aldrei að standa vegna rangstöðu, en Lee Mason, sem sat í VAR-herberginu á meðan leik stóð, gleymdi að teikna línur á skjáinn til að skera úr um hvort rangstöðu væri að ræða.

Í kjölfarið steig Howard Webb, yfirmaður dómarasambandsins, fram og baðst afsökunar á því sem hann kallaði mannleg mistök. Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, vildi þó ekki meina að um mannleg mistök væri að ræða, heldur væri þetta dæmi um mann sem vissi ekki út á hvað starfið hans gengi.

Enska dómarasambandið, PGMOL, sendi svo frá sér tilkynningu fyrr í kvöld þar sem staðfest var að Mason væri ekki lengur í starfi. Í yfirlýsingunni er honum þakkað fyrir sín störf, en Mason var dómari á hæsta stigi í 15 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×