Fótbolti

Hörmu­legt gengi Valencia heldur á­fram og fallið blasir við

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það gengur bókstaflega ekkert upp hjá Valencia þessa dagana.
Það gengur bókstaflega ekkert upp hjá Valencia þessa dagana. Angel Martinez/Getty Images

Spænska knattspyrnufélagið Valencia má muna fífil sinn fegurri. Liðið tapaði 1-0 fyrir Getafe í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, í kvöld og situr í fallsæti.

Valencia var með betri liðum Evrópu í kringum aldamót. Liðið komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu, varð spænskur meistari og allt lék í lyndi. Undanfarin ár hafa hins vegar verið mögur. Tíðar þjálfarabreytingar, bestu leikmenn liðsins seldir og óspennandi menn fengnir inn í staðinn.

Gennaro Gattuso, sem var ráðinn þjálfari liðsins síðasta sumar, var látinn fara á dögunum og í hans stað kom Rúben Baraja. Þó sá sé einn dáðasti sonur Valencia þá virðist ekki mikið í hann spunnið sem þjálfara.

Baraja og lærisveinar hans mættu Getafe í kvöld og töpuðu sanngjarnt 1-0. Borja Mayoral með sigurmarkið á 82. mínútu leiksins.

Eftir tap kvöldsins er Valencia fallið niður í 19. sæti en Getafe fór úr 19. sætinu og upp í það 16. með sigrinum. Sem stendur er fallbaráttan í La Liga galopin en Valencia er í næstneðsta sæti með aðeins 20 stig en Sevilla er í 12. sæti með 25 stig.

Það getur því enn allt gerst en Valencia, sem hefur nú tapað fimm deildarleikjum í röð, virðist stefna hraðbyr á næstefstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×