Benn átti að mæta Chris Eubank yngri í október síðastliðnum en féll á tveimur lyfjaprófum í aðdraganda bardagans þar sem frjósemislyf ætlað konum, klómífen, mældist í blóði hans.
Bardagans var beðið með eftirvæntingu þar sem hann átti að fara fram sléttum 30 árum eftir bardaga feðra þeirra, Nigel Benn og Chris Eubank eldri. Benn yngri féll hins vegar á lyfjaprófi í sumar og hefur verið í banni síðan.
WBC, alþjóðahnefaleikasambandið, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Benn hafi ekki viljandi innbyrt ólöglega efnið. Rannsókn breskra lyfjayfirvalda er þó ekki lokið.
„Það voru engar óyggjandi sannanir fyrir því að hr. Benn hafi tekið þátt í vísvitandi eða vitandi inntöku klómífens,“ segir í yfirlýsingu WBC.
„Skjalfest og afar mikil neysla hr. Benn á eggjum á þeim tíma sem sýnatakan fór fram virðist veita eðlilega skýringu á neikvæðu niðurstöðunni,“ segir þar enn fremur.
Banni Benn frá boxinu hefur því verið aflétt af sambandinu og hefur hann aftur verið skráður á heimslistann og má keppa hvar sem er í heiminum - nema í Bretlandi, þar sem frekari rannsókn breskra lyfjayfirvalda fer fram.