Handbolti

„Svo eru Addi Pé og Erlingur búsettir í Eyjum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Stefánsson var leikmaður, er aðstoðarþjálfari og verður aðalþjálfari.
Magnús Stefánsson var leikmaður, er aðstoðarþjálfari og verður aðalþjálfari. Vísir/Bára Dröfn

Magnús Stefánsson fær stöðuhækkun hjá ÍBV í sumar en hann tekur þá við þjálfun meistaraflokks karla í handbolta eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Erlings Richardssonar undanfarin ár.

Eyjamenn tilkynntu um nýjan þjálfara sinn í vikunni en vitað var að Erlingur ætlaði að hætta með liðið eftir þetta tímabil.

„Þetta leggst bara mjög vel í mig því þetta er spennandi lið og geggjað umhverfi að vera í og vinna í,“ sagði Magnús Stefánsson.

Bjóst hann við því að ÍBV myndi bjóða honum þetta starf svona snemma?

„Þetta kom frekar snöggt upp. Ég átti ekki endilega von á því að mér yrði boðið þetta frekar en einhverjum öðrum. Það er fullt af frambærilegum og flottum þjálfurum þarna úti. Þess vegna er þetta enn meiri heiður fyrir mig að fá þetta tækifæri,“ sagði Magnús.

Magnús ætti að þekkja liðið vel enda verið í kringum það lengi, bæði sem leikmaður og svo sem aðstoðarþjálfari.

„Ég kem inn í þennan fasa sem fer í gangi 2011. Ég kem inn í lið sem Addi Pé (Arnar Pétursson) er með og svo koma fleiri þjálfarar þarna inn, Gunni Magg og Erlingur. Allt eru þetta frábærir þjálfarar sem ég er búinn að læra mjög mikið af,“ sagði Magnús.

„Ég reyni að nýta mér það sem ég hef lært og svo eru Addi Pé og Erlingur búsettir í Eyjum og maður getur því fengið að sækja einhverja þekkingu og annað til þeirra,“ sagði Magnús.

„Þetta er bara einkennandi fyrir þetta samfélag hérna að það eru allir tilbúnir að leggja hönd á plóg ef þeir geta hjálpað á annan borð,“ sagði Magnús.

Ef horft er til næsta tímabilsins hvernig lítur þetta út með mannabreytingar og annað? Er að hefjast annað uppbyggingartímabil?

„Breytingin á liðinu verður ekkert mikil nema að það er kominn nýr starfsmaður A á næsta ári. Það er kannski það jákvæða við það að fá innanbúðarmann því þá er hægt að halda áfram með það sem er búið er verið að byggja á. Áherslurnar verða því ekki mikið aðrar en þær eru í dag,“ sagði Magnús. Það má sjá allt viðtalið hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtal við Magnús Stefánsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×