Viðskipti innlent

Vöruviðskiptin óhagstæð um 25,9 milljarða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kyrrlátur morgun í Reykjavíkurhöfn og togarar í höfn.
Kyrrlátur morgun í Reykjavíkurhöfn og togarar í höfn. Vísir/Vilhelm

Fluttar voru út vörur fyrir 73,8 milljarða króna í febrúar 2023 og inn fyrir 99,7 milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í febrúar voru því óhagstæð um 25,9 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,1 milljarð króna í febrúar 2022 á gengi hvors árs fyrir sig.

Hagstofan greinir frá þessu.

Vöruskiptajöfnuðurinn í febrúar 2022 var því 10,8 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 323,2 milljarða króna sem er 104 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst um 26,3% á 12 mánaða tímabili

Verðmæti vöruútflutnings í febrúar 2023 jókst um 7,6 milljarða króna, eða um 11,5%, frá febrúar 2022, úr 66,2 milljörðum króna í 73,8 milljarða.

Verðmæti vöruútflutnings á 12 mánaða tímabili var 1.012,6 milljarðar króna og jókst um tæplega 211,1 milljarða króna miðað við tólf mánaða tímabili ári fyrr eða um 26,3% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 57% alls vöruútflutnings og jókst verðmæti þeirra um 34,5% samanborið við tólf mánaða tímabili ári fyrr. Sjávarafurðir voru 35% alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra jókst um 16.3% í samanburði við tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á 12 mánaða tímabili

Verðmæti vöruinnflutnings nam 99,7 milljörðum króna í febrúar 2023 samanborið við 81,4 milljarða í febrúar 2022 og jókst því um 18,4 milljarða króna eða um 22,6%. Verðmæti hrá- og rekstrarvöru nam 28,1 milljarði króna og jókst um 3,7 milljarða (15%), verðmæti fjárfestingarvara (utan flutningstækja) nam 25,3 milljörðum króna sem er aukning um 2,9 milljarða króna (13%) og verðmæti eldsneytis nam 10,9 milljörðum og jókst um 3 milljarða króna (37,9%) samanborið við febrúar 2022.

Verðmæti vöruinnflutnings á 12 mánaða tímabili var 1335,8 milljörðum króna og jókst um 315,1 milljarð miðað við tólf mánaða tímabili ári fyrr eða um 30,9% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingavörum.

Meðaltal gengisvísitölu1 síðustu tólf mánaða var 192 og var gengið 1,2% sterkara en tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 194,4. Gengið veiktist um 7% í febrúar (201,3) samanborið við febrúar 2022 (188,2).

Endurskoðun fyrri niðurstaðna

Meðferð á leigusamningum á flugvélum í þjóðhagsreikningum og utanríkisviðskiptum hefur verið til skoðunar á Hagstofunni um nokkurt skeið eftir að breytingar voru gerðar meðferð þessarra samninga við birtingu á niðurstöðum þjóðhagsreikninga í ágúst 2021. Leitað var til Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, varðandi aðferðafræðileg álitaefni í þessu sambandi. Var það niðurstaða Eurostat að aðgreiningur á milli fjármögunar- og rekstrarleigusamninga tæki mið af samskonar kostnaðarhlutfalli sem ræðst af markaðsveðmæti viðkomandi tækis og uppsöfnuðum leigugreiðslum yfir leigutímann. Í þeim tilvikum þar sem þetta hlutfall er tilölulega lágt sé um rekstrarleigu að ræða, en um fjármögnunarleigu að ræða sé hlutfallið hátt.

Í ljósi þessarar niðurstöðu Eurostat hefur meðhöndlun á leigusamningum í samgöngum verið færð í upphaflegt horf frá því sem var fyrir breytinguna í ágúst 2021. Breytingin hefur þau áhrif að fyrir tímabilið 2018-2022 lækkar vöruinnflutningur og fjármunamyndun, en innflutt þjónusta eykst frá því sem áður var.

Uppfært klukkan 15:09 eftir breytingar á frétt Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×