Fótbolti

Hákon Arnar samdi aftur við FCK: „Einn sá á­huga­verðasti sem ég hef séð í mörg ár“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson fagnar hér marki fyrir FC Kaupmannahafnarliðið. Hann er nú með samning við danska félagið til ársins 2027.
Hákon Arnar Haraldsson fagnar hér marki fyrir FC Kaupmannahafnarliðið. Hann er nú með samning við danska félagið til ársins 2027. Getty/Lars Ronbog

Hákon Arnar Haraldsson kemur til móts við íslenska A-landsliðið með nýjan samning í vasanum.

Lið hans, FCK frá Kaupmannahöfn, tilkynnti á heimasíðu sinni í dag að Hákon Arnar hafi endurnýjað samning sinn við félagið.

Nýi samningurinn hjá þessum nítján ára strák nær nú til ársins 2027 og er hann því á samning hjá félaginu næstu fjögur árin eða þar til að hann verður 23 ára gamall.

Hákon varð í vetur fjórði Íslendingurinn frá upphafi til að skora í Meistaradeildinni þegar hann skoraði í 1-1 jafntefli FCK á móti þýska liðinu Dortmund á Parken.

„Hákon er einn af áhugaverðustu ungu leikmönnum sem ég hef séð í Danmörku í mörg ár,“ sagði Peter Christiansen, íþróttastjóri FCK, í viðtali á heimasíðu danska félagsins.

„Þetta eru stór orð en augljóslega trúum við því að hann sé afar hæfileikaríkur leikmaður. Hann hefur ekki aðeins sýnt að hann getur gert útslagið í dönsku úrvalsdeildinni heldur einnig í Meistaradeildinni og með landsliðinu sínu,“ sagði Christiansen.

Hákon kom til FCK þegar hann var aðeins sextán ára gamall en hefur síðan unnið sig upp í stórt hlutverk hjá aðalliði félagsins.

Á síðasta ári þá hjálpaði hann FCK að vinna danska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×