Fótbolti

„Ekkert nýtt og engin geimvísindi“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Ingvi Traustason í baráttunni í Bosníu í kvöld þar sem Ísland varð að sætta sig við 3-0 tap.
Arnór Ingvi Traustason í baráttunni í Bosníu í kvöld þar sem Ísland varð að sætta sig við 3-0 tap. EPA-EFE/FEHIM DEMIR

Arnór Ingvi Traustason sagði engin geimvísindi fólgin í því fyrir sig að spila í nýju hlutverki í landsliðinu sem aftasti miðjumaður, í 3-0 tapinu gegn Bosníu í kvöld. Hann segir enga taugaveiklun í liðinu vegna úrslitanna.

„Við vorum bara ekki nægilega góðir. Ekki nægilega þéttir. Það gekk nánast ekkert upp. Þeir leyfðu okkur að hafa boltann og biðu eftir að við gerðum okkar mistök. Við áttum að loka á skotið í þriðja markinu en þeir nýttu færin sín tvö í fyrri hálfleik vel,“ sagði Arnór Ingvi í viðtali við Vísi strax eftir leik.

„Við byrjuðum þetta ekki nægilega vel. En það er ekkert panik. Þetta er rétt að byrja og þetta er fyrsti leikur. Það er nóg eftir. Þar liggur okkar fókus,“ sagði Arnór.

Aðspurður hvort eitthvað óöryggi hefði verið í vörninni, án sterkra manna á borð við Aron Einar Gunnarsson og Sverri Inga Ingason, svaraði Arnór:

„Nei, alls ekki. Við vorum bara ekki nægilega þéttir. Það fór einhvern veginn allt í gegnum okkur, sem við viljum alls ekki. Þeir bara refsuðu okkur.“

Spurður út í stöðu sína sem aftasti miðjumaður svaraði Arnór, sem nær alltaf hefur leikið framar á vellinum í íslenska liðinu:

„Ég var alveg klár. Það er bara undir mér komið að taka þessa stöðu. Ég hef spilað hana aðeins með Norrköping, þar sem við spilum með tvær sexur en ekki eina sexu. Þetta er ekkert nýtt og engin geimvísindi.“

Arnór sagði að nú færi íslenska liðið upp á hótel, jafnaði sig og færi yfir leikinn, og myndi svo vinna Liechtenstein á sunnudaginn. Hann vildi ekki gera of mikið úr þýðingu leiksins í kvöld þó að ljóst sé að baráttan um að komast upp úr riðlinum verði sennilega við Bosníu.

„Það er hægt að hugsa þetta sem úrslitaleik og eitthvað en þetta er bara einn leikur, fyrsti leikur í riðlinum, og það er nóg eftir. Ekkert panik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×