„Við vorum sérstaklega slakir í fyrri hálfleik. Náðum ekki að tikka í boxin sem við ætluðum okkur. Þá er maður hundfúll. Við töldum okkur eiga meiri möguleika. Þeir voru aftur á móti grimmari, sterkari og unnu fleiri einvígi.“
Íslenska liðið kom á hælunum til leiks og mark lá nánast í loftinu frá upphafi.
„Alex varði aðeins áður en þeir skora. Mín fyrsta tilfinning er að við náum ekki að vinna nógu mikið af fyrstu einvígjum. Það er of langt á milli manna. Þetta verður erfitt þegar við náum ekki að klukka andstæðinginn. Við vorum bara á eftir. Þeir kláruðu leikinn með þriðja markinu og aftur var það of auðvelt mark sem á ekki að sjást á þessu getustigi.“
Þjálfarinn vildi ekki grípa í að afsaka sig með því að það hafi vantað einhverja menn í liðið.
„Við megum ekki gera það. Það vantaði líka menn hjá þeim. Þetta var bara ekki nógu gott og ég tek að sjálfsögðu ábyrgð á því,“ segir Arnar sem var jákvæður fyrir leikinn en viðurkenndi að þessi leikur væri skref til baka.
„Þetta er afturför. Ég bjóst ekki við því að myndum tapa svona stórt í kvöld. Ég viðurkenni það fúslega. Stundum þarf að taka tvö skref til baka til að halda áfram. Þetta var samt ekki úrslitaleikur og þetta er ekki búið.“