Erlent

Stuðnings­maður inn­rásar Rússa lést í sprengingu á veitinga­stað Prigoz­hins

Árni Sæberg skrifar
Sprengingin varð á meðan Tatarsky hélt fund stuðningsmanna innrásarinnar.
Sprengingin varð á meðan Tatarsky hélt fund stuðningsmanna innrásarinnar. Twitter/Kevin Rothrock

Rússneski stríðsbloggarinn Vladlen Tatarsky lést eftir öfluga sprengingu á veitingastað í Pétursborg í dag. Veitingastaðurinn er sagður í eigu Yevgeny Prigozhin, stofnanda Wagner-hópsins alræmda.

Tatarsky hefur vakið mikla athygli eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir rúmu ári síðan. Hann hefur til að mynda birt myndskeið af sér innan úr Kreml þar sem hann lofar innrásina.

„Við munum sigra alla, drepa alla, ræna alla sem við þurfum að ræna, allt verður eins og við viljum hafa það,“ segir hann í myndskeiðinu. Það má sjá hér að neðan ásamt myndskeiði sem sýnir sprenginguna.

Í frétt rússneska fréttamiðilsins RIA Novosti er haft eftir innanríkisráðuneyti Rússlands að Tatarsky hafi látist í sprengingunni og að sextán hafi særst. Þá er haft eftir Alexander Beglov, borgarstjóra Pétursborgar, að 25 hafi særst og að nítján þeirra séu á sjúkrahúsi.

RIA hefur eftir heimildarmönnum sínum að kona hafi fært Tatarsky styttu að gjöf sem innihélt sprengiefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×