Greint var frá því á Fótbolti.net í gær að Fantasy leikur fyrir Bestu-deild karla myndi fara í loftið í dag þar sem spilarar velja sín draumalið skipuð leikmönnum deildarinnar. Leikmenn safna svo stigum fyrir ýmis atriði, svo sem mörk, stoðsendingar og að halda hreinu.
ÍTF sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem samtökin greina frá ástæðu þess að aðeins verði haldið úti Fantasy leik fyrir karladeildina í ár, en kvennadeildin sitji á hakanum.
Í yfirlýsingu ÍTF kemur fram að leikurinn verði keyrður á lifandi tölfræði frá gagnafyrirtækinu Opta - Stats Perform sem sé leiðandi á sviði íþróttagagna í heiminum. Þau gögn séu hins vegar ekki til fyrir Bestu-deild kvenna og því sé ekki hægt að bjóða upp á Fantasy leik fyrir deildina.
Íris Dögg birti svo færslu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hún virðist ekki sátt við ákvörðun ÍTF. Hún bendir á að þegar skoaður sé listi yfir sterkustu deildir Evrópu sé Besta-deild kvenna mun ofar í kvennaboltanum en Besta-deild karla í karlaboltanum.
„Allt mjög áhugavert sérstaklega þegar Besta-deild kvenna er í 16. sæti á Evrópulistanum og Besta-deild karla kemst ekki í top 30!!“ segir Íris á Facebook-síðu sinni.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ÍTF sætir gagnrýni fyrir misræmi í umfjöllun um karla- og kvennadeildirnar sem nú eru í þann mund að hefjast. Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna höfðu til að mynda ýmislegt út á auglýsingu ÍTF fyrir deildirnar að setja þar sem samtökunum þykir halla verulega á þátttöku leikmanna kvennadeildarinnar í auglýsingunni.