Fótbolti

Sjóðheitur Orri áfram á markaskónum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Orri Steinn fagnar.
Orri Steinn fagnar. Twitter@SEfodbold

Orri Steinn Óskarsson skoraði annað marka Sönderjyske þegar liðið féll úr leik í danska bikarnum í knattspyrnu í dag. Sönderjyske tapaði 3-2 gegn Silkeborg og samtals 5-2.

Liðin mættust í síðari leik 8-liða úrslita danska bikarsins í dag en Silkeborg var í góðri stöðu fyrir leikinn eftir 2-0 sigur á útivelli í fyrri leiknum. Sönderjyske leikur í næst efstu deild en Silkeborg siglir nokkuð lygnan sjó í efstu deild.

Það voru gestirnir frá Sönderjyske sem hófu leikinn í dag af krafti. Orri Steinn kom liðinu í 1-0 á 30. mínútu og Sönderjyske komst í 2-0 skömmu síðar þegar Oliver Sonne skoraði sjálfsmark.

Staðan í hálfleik 2-0 en einvígið hnífjafnt.

Heimamenn í Silkeborg stigu hins vegar upp eftir hlé. Þeir minnkuðu muninn á 52. mínútu eftir sjálfsmark Marc Dal Hende og á 66. mínútu jafnaði Sören Tengstedt metin. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði svo Alexander Busch sigurmark Silkeborg sem vann að lokum 3-2 sigur.

Orri Steinn Óskarsson hefur verið sjóðandi heitur að undanförnu. Hann skoraði í öllum leikjum U-19 ára landsliðs Íslands þegar liðið tryggði sér sæti úr milliriðli og á lokamót Evrópukeppninnar og varð þar að auki markahæsti leikmaður undankeppninnar.

Orri Steinn er á láni hjá Sönderjyske frá FC Kaupmannahöfn en markið í dag var hans þriðja í öllum keppnum síðan hann gekk til liðs við Sönderjyske í lok janúar.

Stefán Teitur Þórðarson var ekki í leikmannahópi Silkeborg í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×