Enski boltinn

Tap í fyrsta leik Lampard | Newcastle með endurkomusigur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vesen á þessum.
Vesen á þessum. vísir/Getty

Frank Lampard átti engar töfralausnir við gengi Chelsea þegar liðið heimsótti Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Portúgalski miðjumaðurinn Matheus Nunes skoraði það sem reyndist eina mark leiksins eftir rúmlega hálftíma leik og mikilvægur sigur Úlfanna í höfn en með sigrinum lyftir liðið sér upp í 12.sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsvæðinu.

Leicester kom sér í fallsæti með 0-1 tapi gegn Bournemouth á heimavelli í dag þar sem danski miðjumaðurinn Philip Billing gerði eina mark leiksins á 40.mínútu.

Nottingham Forest tyllti sér einnig á fallsvæðið með 2-0 tapi gegn Aston Villa þar sem Bertrand Traore og Ollie Watkins voru á skotskónum í síðari hálfleik.

Á sama tíma vann West Ham mikilvægan 0-1 sigur á Fulham í Lundúnarslag þar sem eina mark leiksins var sjálfsmark.

Newcastle United vann þá góðan endurkomusigur eftir að Ivan Toney hafði náð forystunni fyrir Brentford í leik liðanna í dag. Sjálfsmark David Raya, markvarðar Brentford, og mark frá Alexander Isak komu Newcastle í forystu og endurheimtu þeir þar með þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×