Enski boltinn

Marsch neitaði Leicester

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jesse Marsch mun ekki taka við Leicester City.
Jesse Marsch mun ekki taka við Leicester City. Clive Mason/Getty Images

Jesse Marsch, fyrrverandi þjálfari Leeds United, mun ekki taka við enska úrvalsdeildarliðinu Leicester City. Hann ræddi við félagið en ákvað að taka ekki við starfinu.

Leicester City er í leit að þjálfara eftir að láta Brendan Rodgers fara fyrir ekki svo löngu. Félagið hafði samband við Jesse Marsch sem var látinn fara frá Leeds United fyrr á leiktíðinni en félög ensku úrvalsdeildarinnar hafa verið dugleg að sparka mönnum úr starfi í vetur.

Hinn 49 ára gamli Marsch var var kominn langt í viðræðum sínum við Leicester og virtist félagið hafa trú á að því að hann væri maðurinn til að halda þeim í ensku úrvalsdeildinni. Marsch horfði á Leicester tapa gegn Bournemouth um helgina og ræddi starfslið sitt eftir leik. Í kjölfarið ákvað hann að taka ekki starfinu.

Hann taldi félagið þurfa öðruvísi þjálfara fari svo að það falli sem og öðruvísi leikmenn en hann er vanur að sækja.

Leicester City hefur sem stendur náð í eitt stig í síðustu átta leikjum sínum og mætir Manchester City næst. Tapist sá leikur gæti liðið verið sex stigum frá öruggu sæti þegar sjö leikir eru eftir af leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×