Félagið var í eigu Helga Magnússonar fjárfestis sem stofnaði haustið 2022 félagið Fjölmiðlatorg. Helgi keypti í gegnum félagið Fjölmiðlatorg fjölmiðilinn DV af Torgi á 420 milljónir króna.
Það var að morgni föstudagsins 31. mars sem starfsmönnum hjá Torgi, þeir sem voru á vaktinni, var tilkynnt að loknum morgunfundi ritstjórnar að öllu starfsfólki yrði sagt upp utan blaðamanna DV. Dreifingu Fréttablaðsins í hús á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri hafði verið hætt um áramótin og ljóst að óvissa með rekstur blaðsins var mikil.
Starfsmenn fengu greitt fyrir vinnu sína í mars en var annars bent á að skrá sig á atvinnuleysisbætur og leita í ábyrgðarsjóð launa.
Björn Þorfinnsson hafði sagt upp störfum sem ritstjóri en dró uppsögnina til baka og verður áfram ritstjóri. Hann tjáði Vísi í síðustu viku að til stæði að efla ritstjórnina og blaðamönnum DV myndi strax fjölga úr sjö í níu. Þá verður ný skrifstofa DV í Hlíðarsmára í Kópavogi.
Óskar Sigurðsson lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri búsins. Er skorað á alla sem telja sig eiga kröfu í búið að lýsa þeim innan tveggja mánaða.