Íslenski boltinn

Vindurinn stendur undir nafni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Már Sævarsson eða Vindurinn.
Birkir Már Sævarsson eða Vindurinn. Hafliði Breiðfjörð

Landsliðsmaðurinn fyrrverandi Birkir Már Sævarsson er með gælunafnið „Vindurinn“ vegna þess gríðarlega hraða sem hann býr yfir. Þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára gamall virðist ekkert farið að hægjast á Birki Má sem var fljótasti leikmaður Vals í 1. umferð Bestu deildar karla.

Birkir Már var á sínum stað í hægri bakverði Vals þegar liðið vann 2-1 sigur á ÍBV í 1. umferðinni á dögunum. Guðmundur Benediktsson, betur þekktur sem Gummi Ben, birti skemmtilega staðreynd á Twitter-síðu sinni.

„Elsti leikmaður Vals var hraðasti leikmaður Vals í fyrstu umferð Bestu deildarinnar,“ stóð þar eins og sjá má hér að neðan. Þá kom fram að Birkir Már náði 34,38 kilómetra hraða.

Birkir Már, sem verður 39 ára síðar á þessu ári og því fertugur á næsta ári, ræddi hraðann sem hann býr yfir í viðtalsseríu hér á Vísi fyrir ekki svo löngu. Þar kom fram að þessi eiginleiki lét ekki á sér kræla fyrr en í 2. flokki.

„Það var ekki fyrr en ég var kominn á lokaárið í 2. flokk - þegar ég var kominn með þennan hraða - sem ég hafði eiginleika sem ég gat skarað fram úr í.“

Vindurinn verður að öllu óbreyttu í byrjunarliði Vals þegar liðið tekur á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í 2. umferð Bestu deildarinnar á sunnudaginn kemur. Nú er bara að bíða og sjá hvort hann nái 35 kílómetra hraða þar.

2. umferð Bestu deildarinnar

  • Laugardagur 15. apríl
  • 14:00 Keflavík - KR (Stöð 2 Besta deildin)
  • 16:00 KA - ÍBV (Stöð 2 Besta deildin)
  • 17:00 FH - Stjarnan (Stöð 2 Sport 5)


  • Sunnudagur 16. apríl
  • 17:00 Víkingur - Fylkir (Stöð 2 Besta deildin)
  • 19:15 HK - Fram (Stöð 2 Besta deildin)
  • 19:15 Valur - Breiðablik (Stöð 2 Sport)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×