Enski boltinn

Ollie Watkins skorar jafnmikið og Haaland

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ollie Watkins hefur verið sjóðandi heitur síðustu vikurnar.
Ollie Watkins hefur verið sjóðandi heitur síðustu vikurnar. Vísir/Getty

Erling Haaland jafnaði markamet ensku úrvalsdeildarinnar í sigri Manchester City á Leicester í gær en annar framherji í deildinni hefur einnig verið á skotskónum undanfarið.

Aston Villa hefur átt góðu gengi að fagna síðan Unai Emery tók við liðinu í október. Síðan þá hefur liðið unnið tólf af nítján deildarleikjum og situr Villa í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-0 sigur á Newcastle í gær.

Sá sem hefur fengið flestar fyrirsagnirnar á meðan á góðu gengi Villa hefur staðið er framherjinn Ollie Watkins. Watkins skoraði tvö mörk og lagði það þriðja upp í sigrinum í gær og hefur alls skorað fjórtán mörk í úrvalsdeildinni á tímabilinu. 

Ellefu af fjórtán mörkum Watkins hafa komið í síðustu tólf leikjum hans með Villa en Erling Haaland hefur einnig skorað ellefu mörk fyrir Manchester City í síðustu tólf leikjum sínum. Norðmaðurinn jafnaði markamet úrvalsdeildarinnar í gær með marki númer þrjátíu og tvö í úrvalsdeildinni.

„Ekki hægt að ganga framhjá honum“

Í gær skoraði Watkins tvö mörk í sama leiknum í fyrsta sinn og það fyrir framan landsliðsþjálfara Englands Gareth Southgate sem var í stúkunni. Watkins hefur átt þátt í fimmtán mörkum Villa eftir HM í Katar sem er meira en allir aðrir leikmenn deildarinnar utan Haaland.

„Hann gæti ekki hafa gert meira, hann var stórkostlegur,“ sagði Rio Ferdinand, sérfræðingur BT Sport, eftir leikinn í gær.

„Hann spyr varnarmenn allra þeirra spurninga sem þeir vilja ekki fá. Í forminu sem hann er í er ekki hægt að ganga framhjá honum í landsliðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×