Enski boltinn

Rus­so hetja Man United gegn Skyttunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einhvern veginn endaði þetta skot frá Russo í netinu.
Einhvern veginn endaði þetta skot frá Russo í netinu. Simon Marper/Getty Images

Alessia Russo skoraði eina mark leiksins þegar Manchester United vann Arsenal 1-0 í leik sem gæti skipt sköpum í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Bæði lið eru að berjast um titilinn ásamt Chelsea og Manchester City. Því var vitað að leikur kvöldsins gæti skipt gríðarlegu máli þegar talið yrði upp úr pokanum fræga í vor. Leikur kvöldsins einkenndist af mikilli baráttu og hörku en alls fóru fimm gul spjöld á loft, þar af fjögur á lið Man United.

Það var hins vegar einnig Man United sem skoraði eina mark leiksins. Það gerði Russo þegar fyrri hálfleikur var svo gott sem liðinn. Nikita Parris, fyrrverandi leikmaður Arsenal, með stoðsendinguna.

Í síðari hálfleik settu Skytturnar gríðarlega pressu á heimaliðið en allt kom fyrir ekki og Rauðu djöflarnir héldu út.

Man United jók forystu sína á toppi deildarinnar í fjögur stig en Chelsea er í 2. sæti með tvo leiki til góða. Arsenal og Manchester City koma eru sex stigum á eftir toppliðinu en þau eiga einnig leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×