Fótbolti

Gylfi Þór staddur á Íslandi eftir tvö ár í farbanni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sást fyrst opinberlega eftir handtökuna á leik með Íslenska kvennalandsliðinu í Englandi síðasta sumar. 
Gylfi Þór Sigurðsson sást fyrst opinberlega eftir handtökuna á leik með Íslenska kvennalandsliðinu í Englandi síðasta sumar.  Vísir/Vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta er staddur hér á landi en hann var á dögunum leystur úr farbanni eftir að saksóknaraembættið í Manchester ákvað að kæra hann ekki vegna meints kynferðisbrots hans. 

Það er fotbolti.net sem greinir frá þessu. Fram kemur í frétt fótbolta.net að heimildir miðilsins hermi að Gylfi Þór sé staddur hér á landi. 

Gylfi Þór hefur ekkert tjáð sig opinberlega eftir að hann var handtekinn sumarið 2021 grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi. 

Age Hareide, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, sem einnig er staddur hérlendis, sagði á blaðamannafundi í vikunni að hann vonaðist til þess að Gylfi Þór, sem var á mála hjá Everton þegar hann var handtekinn myndi taka fram fótboltaskóna á nýjan leik. 

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður knattspyrnusambands Ísladns, KSÍ, hefur sagt að ekkert sé því til fyrirstöðu að Gylfi Þór leiki með landsliðinu aftur nú þegar mál hans hefur verið fellt niður. 

Fram kom í grein Athletic sem birtist í vikunni að fjölskylda Gylfa Þórs gæti sent frá sér yfirlýsingu um mál hans innan tíðar en hvorki Gylfi Þór né fjölskylda hans hefur tjáð sig um málið eftir niðurfellinguna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×