Enski boltinn

Paratici segir starfi sínu hjá Totten­ham lausu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þrjátíu mánaða bannið sem Fabio Paratici var úrskurðaður í gildir núna um allan heim.
Þrjátíu mánaða bannið sem Fabio Paratici var úrskurðaður í gildir núna um allan heim. Getty/Simon Stacpoole

Fabio Paratici, yfirmaður knattspyrnumála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham Hotspur, hefur sagt starfi sínu lausu.

Paratici starfaði áður fyrir Juventus og var hluti af þeim sem ítalska knattspyrnusambandið bannaði frá knattspyrnu eftir að þáverandi forráðamenn Juventus höfðu verið að eiga við bókhaldið. Paratici áfrýjaði dómnum en fékk honum ekki hnekkt, því sá hann engan annan kost en að segja af sér hjá Tottenham.

FIFA bannaði Paratici í kjölfarið frá knattspyrnu alfarið og því var hann ekki fær um að sinna starfi sínu hjá Tottenham segir í yfirlýsingu frá enska félaginu. Þar segir einnig að hann hafi tekið ákvörðun sjálfur um að stíga frá borði frekar en að reyna halda í starfið og berjast gegn ákvörðun FIFA.

Ekki er vitað hver tekur við starfinu af Paratici en Grétar Rafn Steinsson hefur starfað sem hægri hönd hans á yfirstandandi leiktíð.

Tottenham Hotspur er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 53 stig að loknum 31 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×