Fótbolti

Grétar Rafn hafi tekið yfir skyldur Paratici hjá Totten­ham

Aron Guðmundsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson og Fabio Paratici fyrir leik Tottenham fyrr á yfirstandandi tímabili
Grétar Rafn Steinsson og Fabio Paratici fyrir leik Tottenham fyrr á yfirstandandi tímabili Getty/Simon Stacpoole

Grétar Rafn Steins­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í knatt­spyrnu hefur tekið yfir verk­efni og skyldur Fabio Paratici hjá enska úr­vals­deildar­fé­laginu Totten­ham. Þessu heldur Daily Mail fram í dag.

Greint var frá því fyrr í dag að Fabio Paratici hefði sagt starfi sínu, sem yfir­maður knatt­spyrnu­mála hjá enska úr­vals­deildar­fé­laginu Totten­ham Hotspur, lausu í kjöl­far hneykslis­máls sem hann var við­riðinn.

Paratici var á sínum tíma dæmdur í 30 mánaða bann frá störfum tengdum knatt­spyrnu vegna þátt­töku hans í því að falsa bók­hald ítalska stór­liðsins Juventus. Upp­haf­lega náði bannið bara til starf­semi á Ítalíu en seinna var það út­víkkað og nær nú til knatt­spyrnu alls staðar í heiminum.

Í milli­tíðinni var Paratici ráðinn sem yfir­maður knatt­spyrnu­mála hjá Totten­ham þar sem hann var meðal annars yfir­maður Ís­lendingsins Grétars Rafns Steins­sonar, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­manns í knatt­spyrnu.

Nú segist Daily Mail hafa heimildir fyrir því að Grétar Rafn hafi tekið yfir verk­efni og skyldur Paratici hjá Totten­ham á­samt Rebeccu Cap­lehorn.

Sú lausn á málinu er sögð vera til skamms tíma en ljóst er að fram undan eru ansi við­burða­ríkir mánuðir hjá Totten­ham sem er án knatt­spyrnu­stjóra til lengri tíma sem og yfir­manns knatt­spyrnu­mála.

Unnið sig jafnt og þétt upp

Það var í júní á síðasta ári sem greint var frá því að Grétar Rafn hefði verið ráðinn til starfa hjá Totten­ham. Upp­haf­lega verk­efni hans hjá fé­laginu var að hafa um­sjón með frammi­stöðu leik­manna en auk þess hefur Grétar verið að vinna náið með þjálfara­t­eymum aðal- og yngri liða Totten­ham.

Á þessum tíma hafði Grétar Rafn verið starfandi hjá Knatt­spyrnu­sam­bandi Ís­lands en þar áður hafði hann meðal annars starfað sem yfir­njósnari enska úr­vals­deildar­fé­lagsins E­ver­ton undir stjórn Marcel Brands.

Grétar gat sér á sínum tíma gott orð sem at­vinnu­maður í knatt­spyrnu og var hann meðal annars á mála hjá fé­lögum á borð við Bol­ton Wanderers, AZ Alk­maar og Young Boys í Sviss.

Þá lék Grétar Rafn um margra ára skeið með ís­lenska karla­lands­liðinu í knatt­spyrnu og á að baki 46 A-lands­leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×