Fótbolti

Sjáðu mörkin: Sveinn Aron Guð­john­sen reyndist hetja Elfs­borg

Aron Guðmundsson skrifar
Sveinn Aron í leik með Elfsborg
Sveinn Aron í leik með Elfsborg Twittersíða Elfsborg

Sveinn Aron Guð­john­sen reyndist hetjan í liði Elfs­borg sem vann 2-1 sigur á Deger­fors í sænsku úr­vals­deildinni í knatt­spyrnu í dag.

Ís­lendingurinn knái skoraði bæði mörk Elfs­borg í leiknum en um er að ræða annan sigur liðsins á yfir­standandi tíma­bili.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós strax á 6.mínútu en þar var að verki téður Sveinn Aron Guð­john­sen.

Eftir langa sendingu fram völlinn tókst Sveini Aroni, eftir mikið harð­fylgi að ná til knattarins, hann gerði síðan virki­lega vel í að koma honum fram hjá Sondre Ross­bach sem varði mark Deger­fors.

Elfs­borg því komið 1-0 yfir og þannig stóðu leikar allt þar til skömmu fyrir lok fyrri hálf­leiksins. Á 43. mínútu náði Damjan Pavlo­vic, leik­maður Deger­fors að jafna metin fyrir heima­menn eftir stoð­sendingu frá Rasmus Örqvist.

Það var þó nógu mikið eftir af leiknum fyrir Svein Aron Guð­john­sen til þess að virkja töfrana í leik sínum einu sinni til við­bótar.

Á 60. mínútu skoraði hann sigur­markið og seinna mark sitt í leiknum með skalla eftir stoð­sendingu frá Niklas Hult.

Elfs­borg fór því heim með stigin þrjú sem í boði voru en sigurinn sér til þess að liðið er sem stendur í 2. sæti sænsku úr­vals­deildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki. Liðin fyrir neðan eiga þó flest öll leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×