Körfubolti

Meistararnir jöfnuðu metin | Ógnar­sterkur varnar­leikur Knicks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eftir að lenda 2-0 undir hafa Stephen Curry og félagar jafnað metin.
Eftir að lenda 2-0 undir hafa Stephen Curry og félagar jafnað metin. Ezra Shaw/Getty Images

Golden State Warriors jafnaði metin gegn Sacramento Kings í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta eftir æsispennandi leik í nótt. New York Knicks og Boston Celtics eru komin 3-1 yfir í sínu einvígi á meðan Minnesota Timberwolves sýndi smá lífsmark.

Kóngarnir frá Sacramento leiddu 2-0 í einvígi sínu gegn ríkjandi meisturum í Golden State áður en Stríðsmennirnir komust á heimavöll. Eftir góðan sigur í þriðja leik liðanna var spennan gríðarleg fyrir leik næturinnar. Gestirnir frá Sacramento voru með forystuna framan af leik en heimamenn sneru dæminu við og leiddu undir lok leiks.

Munurinn var eitt stig þegar Sacramento hélt í síðustu sókn leiksins. Harrison Barnes fékk tækifæri til að tryggja gestunum sigur en skot hans fór af hringnum og Golden State vann með minnsta mögulega mun, lokatölur 126-125.

Að venju fór Stephen Curry fyrir sínum mönnum en hann skoraði 32 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Klay Thompson setti 26 stig og Jordan Poole 22 stig. Hjá gestunum var De‘Aaron Fox stigahæstur með 38 stig ásamt því að taka 9 fráköst og gefa 5 stoðsendingar.

New York Knicks heldur áfram að spila frábæra vörn en liðið vann níu stiga sigur á Cleveland Cavaliers í nótt, lokatölur 102-93. Sigurinn þýðir að Knicks er komið 3-1 yfir í einvíginu og Cavaliers hefur ekki enn skorað yfir 100 stig í leik.

Jalen Brunson var frábær í liði Knicks í nótt en hann skoraði 29 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. RJ Barrett kom þar á eftir með 26 stig. Þá virtist Julian Randle ekki ganga heill til skógar, hann spilaði aðeins 27 mínútur og skoraði aðeins sjö stig.

Hjá Cleveland var Darius Garland með 23 stig og 10 stoðsendingar á meðan stórstjarnan Donovan Mitchell skoraði aðeins 11 stig.

Boston Celtics er komið 3-1 yfir í einvígi sínu gegn Atlanta Hawks eftir átta stiga sigur í nótt, lokatölur 129-121. Jaylen Brown og Jayson Tatum voru stigahæstir hjá Boston með 31 stig hvor. Trae Young skoraði 35 stig og gaf 15 stoðsendingar í liði Hawks.

Þá vann Minnesota Timberwolves loks leik gegn Denver Nuggets. Eftir framlengdan leik vann Minnesota sex stiga sigur, lokatölur 114-108. Staðan í einvíginu er því 3-1 Denver í vil. Anthony Edwards skoraði 34 stig hjá Timberwolves á meðan Nikola Jokić skoraði 43 í liði Denver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×