Enski boltinn

Tróð sér inn á blaða­manna­fund eftir frækinn sigur og heimtaði treyjur leik­manna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eigendurnir og Phil Parkinson, þjálfari liðsins.
Eigendurnir og Phil Parkinson, þjálfari liðsins. Wrexham

Wrexham, eitt frægasta fótboltalið veraldar um þessar mundir, fór upp um deild um liðna helgi. Er liðið loks komið upp í ensku D-deildina og er það að mestu Hollywood-eigendum liðsins að þakka. Virðast þeir komast upp með hvað sem er í Wrexham en annar þeirra mætti á blaðamannafund að leik loknum og heimtaði treyjur tveggja leikmanna liðsins.

Leikararnir Rob McElhenney og Ryan Reynolds fjárfestu í Wrexham fyrir síðasta tímabil. Það tímabil endaði með tárum þegar liðið féll úr leik í umspili E-deildar og komst því ekki upp um deild. Í ár endaði það hins vegar með gleðitárum en um helgina tryggði Wrexham sér sinn fyrsta deildarmeistaratitil í 45 ár.

Fagnaðarlætin eftir 3-1 sigur á Boreham Wood voru gríðarleg enda hafði liðið verið fast í E-deildina lengur en elstu menn muna. Eftir leik brá hinn geðþekki Ryan Reynolds á leik en hann mætti inn á blaðamannafund þar sem Ben Foster, markvörður liðsins, og Elliott Lett, annar af markaskorum dagsins, sátu.

„Foster, Foster, treyjuna núna,“ sagði Reynolds áður en hann spurði Elliott hvort hann væri í einhverju undir treyjunni. Elliott játti því og Reynolds sagði honum þá að rífa sig úr. Foster benti á að treyjan hans væri afar illa lyktandi en Reynolds, sem er þekktur fyrir beittan húmor, kippti sér lítið upp fyrir það.

Aðspurður hvort hann ætlaði að selja treyjurnar á eBay sagði Reynolds einfaldlega að fólk í kvikmyndagerðarbransanum gæti einnig lent í erfiðleikum. Hann óskaði leikmönnunum svo til hamingju og yfirgaf blaðamannafundinn.

Hvort Reynolds stefni á að hengja treyjurnar upp heima hjá sér eða selja þær á eBay hefur ekki enn komið fram. Mögulega stefnir hann á að fjármagna leikmannakaup sumarsins með því að selja þær á uppboði.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×