Fótbolti

Barcelona tapaði ó­vænt fyrir Rayo Val­le­ca­no

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Florencia Tan Jun/Getty Images

Barcelona, topplið spænsku úrvalsdeildarinnar, tapaði einkar óvænt fyrir Rayo Vallecano í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, í kvöld.

Eftir tap Real Madríd í gær hefði Barcelona nánast endanlega getað tryggt sér spænska meistaratitilinn með sigri í kvöld en allt kom fyrir ekki. Vallecano, sem er um miðja deild, sýndi sínar bestu hliðar og komst yfir eftir nítján mínútna leik. Alvaro Garcia með markið eftir sendingu Sergio Camello.

Börsungar voru augljóslega pirraðir og nældu sér í þrjú gul spjöld áður en fyrri hálfleik var lokið. Þeir komu hins vegar boltanum aldrei í netið og staðan 1-0 í hálfleik. Staðan var fljót að breytast í síðari hálfleik en Fran Garcia tvöfaldaði foryst heimamanna á 54. mínútu.

Xavi, þjálfari Börsunga, gerði tvær breytingar strax í kjölfarið og þrjár til viðbótar áður en Robert Lewandowski minnkaði muninn undir lok leiks. Nær komust gestirnir ekki og Rayo Vallecano vann magnaðan 2-1 sigur á toppliðinu.

Barcelona er á toppi La Liga með 76 stig á meðan Real Madríd er í 2. sæti með 65 stig. Bæði lið eiga sjö leiki eftir.

Þá er Atlético Madríd að gera sig líklegt til að stela öðru sætinu en liðið er aðeins tveimur stigum á eftir nágrönnum sínum þökk sé 3-1 sigri á Mallorca í kvöld. Rodrigo de Paul, Álvaro Morata og Yannick Carrasco með mörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×