Enski boltinn

„Raun­veru­leikinn er sá að við erum enn á eftir Arsenal“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep er ávallt líflegur á hliðarlínunni.
Pep er ávallt líflegur á hliðarlínunni. Alex Livesey/Getty Images

Þrátt fyrir 4-1 sigur á Arsenal í kvöld þá sendi Pep Guardiola skýr skilaboð til sinna manna þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir leik. Manchester City mun ekki slaka á þrátt fyrir sigurinn og þó liðið eigi leiki til góða. Það þarf að klára dæmið.

„Næstu þrír leikir eru mjög mikilvægir. Mætum Fulham á sunnudag og Marco Silva hefur gert magnaða hluti með liðið. Eigum svo tvo heimaleiki á móti West Ham United og Leeds United,“ sagði Pep aðspurður hvort hans menn væru nú í bílstjórasætinu þegar kemur að titilbaráttunni.

„Þessir þrír leikir munu skera úr hvort við getum gert það sem við viljum gera. Raunveruleikinn er sá að við erum enn á eftir Arsenal. Það verður ekki auðvelt fyrir okkur en við tökum þetta leik fyrir leik og sjáum hvað gerist.“

„Að þurfa að vinna er best“

Belgíski miðjumaðurinn Kevin de Bruyne skoraði tvívegis í dag eftir sendingar frá norska framherjanum Erling Braut Håland. De Bruyne lagði svo upp eitt mark og Håland skoraði eitt.

„Við höfum alltaf haft mikla ógn sóknarlega en tengingin á milli De Bruyne og Håland er einstök. Í dag reyndum við að nýta hana eins mikið og mögulegt var.“

„Við höfum unnið ensku úrvalsdeildina undanfarin tvö tímabil svo fyrr á tímabilinu sögðum við að við hefðum tíma. Það er andstæðan hjá Arsenal, allir leikir eru úrslitaleikir.“

„Tveimur mánuðum síðar, og leikmennirnir vita það, þá þurfum við að vinna alla leiki til að eiga möguleika. Það er hugarfarið sem þú þarft að hafa, það kemur ekkert til greina en að vinna. Það er best að spila með það hugarfar. Leikmennirnir hafa sýnt mér að þeir fara í alla leiki til að vinna þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×