Erlent

Finnsku hægri­flokkarnir hefja stjórnar­myndunar­við­ræður

Atli Ísleifsson skrifar
Allt stefnir í að Petteri Orpo, formaður finnska Sambandsflokksins, verði næsti forsætisráðherra Finnlands.
Allt stefnir í að Petteri Orpo, formaður finnska Sambandsflokksins, verði næsti forsætisráðherra Finnlands. EPA

Finnski Sambandsflokkurinn mun hefja stjórnarmyndunarviðræður með hægriflokkunum Sönnum Finnum, Kristilegum demókrötum og Sænska þjóðarflokknum á næstu dögum. 

Þetta varð ljóst eftir fund fulltrúa þingflokkanna með Petteri Orpo, formanni Sambandsflokksins, í morgun. Fundurinn stóð í níu mínútur, að því er segir í frétt YLE.

Sambandsflokkurinn vann sigur í finnsku þingkosningunum sem fram fóru fyrr í mánuðinum, þar sem ríkisstjórnarflokkanir fimm, sem eru á miðjunni og á vinstri vængnum, misstu meirihluta sinn. Sanna Marin, formaður Jafnaðarmannaflokksins, baðst í kjölfarið lausnar sem forsætisráðherra og formaður flokksins.

Orpo sagði á blaðamannafundi í morgun að viðræðurnar muni hefjast þann 2. maí næstkomandi.

Þar með er ljóst að hvorki vinstri flokkarnir né Græningjar taki þátt í stjórnarmyndunarviðræðum. Sömuleiðis hafði Miðflokkurinn tilkynnt að hann myndi ekki taka þátt í viðræðum við Orpo og Sambandsflokk hans.

Jafnaðarmannaflokkur Marin fékk 43 þingmenn kjörna af tvö hundruð. Íhaldsflokkurinn Sambandsflokkurinn fékk 48 þingmenn kjörna en þjóðernisflokkurinn Sannir Finnar fékk 46 þingmenn.


Tengdar fréttir

Sanna Marin hefur beðist lausnar frá embætti

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands og formaður Jafnaðarmannaflokksins, fór á fund Sauli Niinistö Finnlandsforseta í morgun og baðst lausnar frá embætti. Ákvörðun hennar kemur í kjölfar nýafstaðinna þingkosninga þar sem ríkisstjórn hennar missti meirihluta.

Sanna hættir sem for­maður

Sanna Marin, fráfarandi forsætisráðherra Finnlands, hefur sagt af sér sem formaður Jafnaðarmannaflokksins í landinu. Að öllum líkindum mun Petteri Orpo taka við sem forsætisráðherra landsins á næstu dögum. 

Sanna viðurkennir ósigur

Petteri Orpo, formaður Sambandsflokksins, hefur lýst yfir sigri í þingkosningunum í Finnlandi, sem haldnar voru í dag. Sanna Marin, formaður Jafnaðarmannaflokksins og sitjandi forsætisráðherra, hefur viðurkennt ósigur nú þegar búið er að telja um 98 prósent atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×